Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Logn í Steinahreppi og Eygló til Kína

Það er frábært að búa í Steinahrepp núna.  Á hádegi á sunnudag var 14 stiga hiti og logn.  Ég notaði helgina til þess að taka til í garðinum og hreinsa allskonar dót úr  bæjarlæknum sem endað hafði flug sitt þar í stormum vetrarins. Eygló mín er flogin til Kína.  Hljómsveitinn hennar Vicky Pollard  ætlaði að spila þar stórri rokktónlistarhátíð.  En fyrir  helgi var þeim tilkynnt að það væri búið að fresta tónleikunum.  Sennilega útaf mótmælunum í tengslum við  ólumpíuleikana og Tíbet.

En það var ekki aftur snúið. Þau eru búin að borga ferðina og uppihald þannig það var ekki annað að gera en að skella sér út.  Ég vona bara að þau fái að spila einhvers staðar og að yfirvöld rugli henni ekki saman við Björk.  Því eins og þeir sem til þekkja vita  geta þær verið áþekkar þegar búið er að setja upp maskann.

Hér er hægt að fylgjast með hljómsveitinni

 http://www.myspace.com/vickypollardmusic

 

Gönguskrúfa

 

Hún Selma mín sem verður fjögurra ára í haust  hefur einstakan orðaforða.  Hrund og fjölskylda höfðu ákveðið að fara í sumardagsskrúðgöngu í Hafnafirði í gær. Selma hafði farið með pabba sínum uppí sumarbústað á föstudaginn.  Í gærmorgun hringdi svo Hrund í þau til vita hvenær væri von á þeim í fjörðinn og til að minna Selmu á hvað þær ætluðu að gera um daginn en hún gleymdi að nefna skrúðgönguna... þá sagi Selma “mamma mundu við ætlum í gönguskrúfu”


Gleðilegt sumar

Það er ekki nokkur svefnfriður fyrir gargandi gæsum í hundraðatali um öll tún sem nú eru orðin fagur græn.  Ekki bara um öll tún því þær eru vappandi alveg upp að bæ og  við svefnherbergis gluggann.  Ég hélt að það væri hægt að nota hundinn okkar hann Mikka sem er svartur labrador til þess að reka gæsirnar úr túnunum.  Nei aldeilis ekki hann er svo skíthræddur við þess fugla að hann kemur ekki nálægt þeim.  Það er aftur á móti annað upp á teningnum þegar smáfuglar og ferðamenn eiga í hlut. Hann djöflast smáfuglunum eins og  óður hundur... og í gær  voru tveir bakpoka ferðamenn að ganga rólegheitum á suðurlandsveginum og áttur sér einskins ills von.  Kemur ekki Mikki hlaupandi að þeim og stelur af öðrum vatnsflösku sem hann var með í hendinni.  Ferðamennirnir virtust hafa gaman af þessu en það er ekki víst að það verði allaf þannig í sumar þegar putta-langar og bakpokamenn fara í röðum framhjá okkur.   Líklega verðum við að fara í atferlismótun og skerða  hundafrelsið á meðan hann lærir að svona eiga hundar ekki að gera.


Plastið

Diljá systir og fjölskylda kom um helgina það var alveg frábært.. Ingi setti upp ljós fyrir okkur og gerði við ljósastæði og fl. Á laugardeginum fékk ég þau með mér með í göngu með svartan plastpoka meðfram girðingum landareignarinnar.. við vorum ekki lengi að tæta plastið sem hefur fokið um allt og fest í girðingarnetinu. Gott að vera búin með þau vorverk.. Já ég segi vorverk því maður reynir að taka jafnóðum það sem safnast á girðingarnar næst bænum yfir veturinn en bíður með hitt þar til það fer að vora og hlýna. Það er svakalega mikið plast sem kemur af þessum heyrúllum. Þó maður reyni að binda fyrir endann rúllurnar svo það tætist ekki af þeim í vindinum og ganga frá plastinu þegar það er tekið utan af þeim er alltaf eitthvað sem sleppur. Og hvað er ljótara en að sjá girðingar í sveitum landsins þaktar hvítum, grænum og svörtum plastflyksum.. En eitt gleymdist og það var að borga Jóni Gauta og Bjarna fyrir bilin sem þeir hreinsuðu... það var gert samkomulag um að þeir fengju 100 kr. fyrir að hreinsa hver bil á milli girðingastaura.. Þegar inn var komið bökuðum við vöfflur í nýja tvöfalda vöfflujárninu... svaka munur að geta bakað tvær í einu.... Um kvöldið elduðum við systurnar svo gæsabringur með kirsuberjasósu og ég get sagt ykkur að maturinn var algjör æði... Uppskriftina fengum við í villibráðablaði Gestgjafans frá því í haust... Hún var þannig að við áttum að brúna bringurnar og setja þær svo í ofn í 4 mín... taka þær út í 4mín og endurtaka þetta tvisvar .... svið vorum svolítið skondnar þegar við vorum að fylgjast með tímanum .. Svo spiluðum við Gaur og fórum í pottinn og höfðum það notalegt.....Takk fyrir komuna

Ég og fjósastörfin

Við erum með 60 til 70 mjólkandi kýr svona eftir því hvaða árstíð er. Fjósið okkar er nokkurn vegin sjálfvirkt. Þar er róbóti sem kýrnar fara sjálfar í þegar þær vilja láta mjólka sig bæði vetur og sumar. Við fylgjumst svo með stöðu mála í tölvu í kaffistofu fjóssins sem gárungar sveitarinnar kalla Pentagon. Flestar kýrnar fara tvisvar á sólarhring í mjöltun sumar oftar. Fjósið er byggt upp eins og litið völundarhús og þurfa þær að fara í gegnum róbótann til þess að komast í fóðrið (hey, fóðurbætir og brauð) sem gerir það að verkum að þær fara viljugri og oftar í gegn. Mér finnst það í raun ótrúlegt hvað þetta virkar vel.
Í fyrravor fór hann Magnús í þriggja sólahringa fer norður í land að sækja einhver verðmæti sem hann keypti þar. Ég hafði verið frekar dugleg að aðstoða hann í fjósinu um helgar þegar ég kom austur þannig að ég var nokkurn vegin farin að átta mig á því hvernig þessar sjálfvirku græjur virkuðu og hvernig kýrnar höguðu sér og hvað maður þarf að gera. Það var því ákveði að ég tæki að mér bústörfin.
Ég held að þetta sé í fyrsta skipti sem ég upplifi það að ráða engan veginn við það verkefni sem ég hef tekið mér fyrir hendur.
Þessar kýr voru sko ekki samvinnufúsar...Það var búið að hleypa þeim út eftir veturinn og þær voru í svo góðum haga að þær létu ekki sjá sig í mjöltun í marga klukkutíma og þegar þær komu inn voru þær skíthræddar við róbótinn og fjósið því það hafði einmitt þessa daga verið fenginn maður til að háþrísti þvo fjósið. ...þannig að ég, til þess að standa mig í hlutverki bóndans þurfti annaðhvort að vera hlaupandi á eftir þeim um allt tún og reka þær inn í fjós og eða loka þær inni sem ekki höfðu farið í gegnum róbótann. Svo voru sumar orðnar svo útþandar af mjólk að róbótinn náði ekki að setja á spenana. Ég varð því að leggjast undir þær og vera tilbúinn að skella sogtúttunum á júgrin á réttu augnabliki.. Dí.... og svo þurfti að hella niður mjólkinni eftir helgina... klikkaði á því að kveikja á mjólkurtanknum þegar hann var tæmdur og ég gerði mér ekki grein fyrir því að það væri slökkt á honum.....
Ég get sagt ykkur að ég var alveg búin þegar hann Magnús minn kom heim. Þrátt fyrir þetta allt saman var hann bara ánægður með mig en viðurkenndi þó að þetta hefði verið helst til of langur tími fyrir mig að vera ein með fjósið svona í fyrsta skipti og að sennilega hefði ég verðið of samviskusöm.. því þær kæmu alltaf fyrir rest í mjaltir, brauðið, og fóðurbætirinn...
Svo sennilega gengur þetta betur næst. ...

Pabbi og Rut

Vor 2008 015 Á þessari mynd sjáið þig Pabba og Rut við nýja Traktorinn okkar... Kannski  ég láti flakka mynd af saumavélinni minni líka einhvern daginn.   Pabbi og Rut komu að heimsækja okku  Þau voru að enda helgarferð í bæinn í tilefni 60 ára afmæli Rutar... Smile  til hamingju með afmælið Rut mín !!!  Eins og ég vissi að þá varð hún alveg heilluð að fjöllunum í kringum mig.  Það verður nú ekki amalegt að fá hana á fjallið næsta haust.  Önnur eins fjallageit er vandfundinn. En pabbi var svo glaður að koma í sveitina að hann gekk um eins og Siggi Sigurjóns .. I love it... I love it...
 
 

Vorið og vinnumaðurinn

Vor 2008 023það er að koma vor.  Þessa mynd tók ég í gær  af túninu  við bæinn.  Þar  var fullt af tjaldi að spóka sig um í grænu grasinu. 

Ég er ótrúlega seinheppin.  En þannig er að við erum með erlendan vinnumann sem býr hjá okkur.  Þetta er ungur maður sem þarf mikið að borða og borðar mikið af því sem honum þykir gott.  Það þýðir ekkert  fyrir mig að gera eins og áður en hann kom að elda það mikið að  það dugi  í hádeginu daginn eftir.  Því hann borðar það um kvöldið eða nóttina.  Á sunnudaginn kom Hrund í heimsókn með fjölskylduna og ég hafði humar í matinn.  Steiktan í hvítlaussmjöri með camenbert rjómasósu að hætti Magga pabba.  Það voru nokkrir humrar í afgang og heilmikil sósa svo ég pakkaði þeim í skál og faldi í ísskápnum. Sagði svo að ég ætlaði að nota þetta með pasta kvöldið eftir.  Það hafði greinilega ekki komist til skila.  Því þegar ég kom svo heim úr vinnu, búin að fara í "kaupfélagið" og kaupa pasta og fl. var bæði humarinn og sósan horfin.   Vinnumaðurinn var að ganga frá í eldhúsinu og ég hundskammaði hann fyrir að klára þetta og sagði honum að ég hefði gengið  þannig frá matnum  að honum hefði átta að vera ljóst að það ætti ekki að takan hann.   Hann afsakaði sig í bak og fyrir og sagðist ekki hafa vitað að ég ætlaði að nota þetta. .. ég var frekar pirruð... hvernig datt honum í hug að ég ætlaði ekki að nota einn dýrasta mat sem maður kaupir... það var einmitt umræðuefnið við mataborðið daginn áður hvað þetta væri dýr matur um allan heim...  Hann fór út og Magnús kom inn rétt á eftir honum. Ég kvartaði við hann, sagði að nú hefði vinnumaðurinn gengið of langt og ég hefði hreinlega skammað hann fyrir að háma í sig kvöldmatinn.  Hvað haldið þið að Magnús  hafi sagt þá......   "Æææ Heiða mín ég vissi ekki að þú ætlaðir að nota hann í kvöld svo ég át hann í hádeginu og gaf vinnumanninum með mér" Frown


Góða helgi

Þá er loksins komið að því að við vinkonurnar í 7together hittumst í kvöld . 

Því miður komast Dídí, Kata og Þórhildur ekki.   En við hinar mætum galvaskar til Tobbu í Heiðgrænumörkina eins og Guðrún komst að orði. Svo nú ég ætla að fara að búa mig undir ferðina .   En fyrst ætla ég að fara og kaupa eyrnatappa fyrir Magnús.  Hann og fleiri byssumenn eru að fara til eyja á morgun á einhverjar skotæfingar á tuðrunni hans Svenna bróðir  . Ætli það sé ekki best að kaupa tappa í eyrun á Svenna líka .. ég ætti kannski að kaupa tappa í alla fjölskylduna ef minn verður í stuði.....

Það verður nú veðrið til þess að leika sér á sjónum á morgun en ég verð fjarri góðu gammi því þetta er ekki konuferð var mér sagt. Svo ég sit bara hlíðin heima og hugsa um kýr og kálfa.....  Góða helgi kæra fjölskylda og vinir...


Eldhúsið okkar

Þessa  dagana fara flestar frístundir mínar í að hanna eldhúsið okkar.  Gamla innréttingin er alveg að niðurlotum komin sem og eldhústækin.  Það hefur reyndir látið á sjá eftir að ég tók við því í ágúst s.l.  Eins og Siggi í Varmahlíð segir eru það sennilega hreyfingarnar.  Bogga er svo róleg og yfirveguð  í vinnu sinni í eldhúsinu en það er eitthvað sem fáir  segja um mig. Þar gildir frekar hraði og hvatvísi... sem sumir kalla stundum brussugagna..  En þreyttar hurðar á neðriskápum eru t.d. farnar að tína tölunni.   Það er bara eitt smá vandamál... það er að við Magnús minn erum ekki alveg sammálu um hvað þarf að gera og hvernig við viljum hafa þetta.

 Á föstudagskvöldið  sat ég með tölvuna í fanginu og þetta frábæra  forrit frá Ikea þar sem maður hendir heilu skápunum  hornanna á milli og getur búið til allskonar eldhús eftir eigin máli og smekk.   Ég sagði honum að nú væri ég komin að niðurstöðu með þetta eldhús.. og hann brosti og sagði .. “já og heldur þú að það sé endanleg núna?”

Ég helt það og sýndi honum nýjustu teikninguna og í leiðinn sagði ég honum að hönnun  á íbúðarhúsnæði sé eitt af mínum áhugamálum og hafi verið það lengi  þannig að hann geti alveg treyst mér í þessu bara.. samþykja.  Svo til að tryggja að ekkert færi á milli mála um það sagði ég við hann og þetta átti að vera staðhæfing. “ En þú ert nú mjög sáttur við það sem ég hef gert tillögur um hér og við höfum breytt -, eins og t.d. herbergin uppi... er það ekki”  Svarið sem ég fékk var “ næsta spurning Heiða mín”   Ubs... En daginn eftir hannaði ég eldhúsið uppá nýtt og svei mér þá ég held að ég sé komin að niðurstöðu... og við erum bæði sátt við hana.. hann meira að segja farin að velta fyrir sér hvernig best sé að brjóta niður veggi og fl.....
 

Smölun í haust

Góða daginn

Mikið var þetta frábær helgi.  Veðrið var svo gott að maður fór ekki inn í hús  nema í rétt til að finna til mat handa liðinu.

Þegar við sátum í pottinum á föstudagskvöldinu undir stjörnubörtum himni  var veðrið svo stillt að við heyrðum vélarnar malla í loðnuskipunum  10 sem voru að leita  að loðnu  í fjörunni  okkar... eða þannig..

Í morgun fór ég svo hér uppí fjall með honum Bjarna vini mínum sem er hjá stundum hjá okkur.  Hörku ganga  hér beint upp Steinafjallið .  Reyndar bara að klettabeltinu.. Hef ekki lagt í það síðan ég fór að smala hér um árið og tók þessa frábæru mynd sem hægt er að sjá í myndaalbúminu.  Einn vinur  minn var eitthvað efins  um að ég hefði í raun tekið hana en ég segi það satt .. klífa skriður, skríða kletta... þarna fór ég.. í sep. 2007.  

En ég fór ekki í fyrra þegar það var smalað af fjallinu í október s.l.  Þá var ég orðin húsfreyja á bænum og eins og sannri húsfreyju sæmir þá sá ég um matargerðina.

Það gekk mjög vel að smala af fjallinu.  Það var svo mikið rok að  börnin sem voru að smala með okkur  fuku á eftir rollunum.. kannski var það þess vegna sem þetta gekk svo hratt ...en svo byrjað ballið...Ein og ég sagði stóð til að grilla heilt lamb ... Magnús  fékk Fýrana undan fjöllunum til að koma með grillið sem þeir  höfðu hannað til þess að  grilla lambið.  Vegna þess hve vel hafði tekist að smala  var ákveðið að flýta matnum.  Eitthvað urðu þeir  Fýrarnir stressaðir og óundirbúnir og eins og Palli á Eyri sagði vitið þraut við að flýta þessu...Þeir settu trékassa undir kolin.. svo bilaði það sem snéri lambinu og þeir kveiktu í öllu draslinu..... . Palli kom inn mín og sagði að það logaði í öllu og bað um vatn.  Ég hentist til. Náði í vatnskönnu og ætlaði að fara að láta renna í hana þegar Palli sagði” nei þetta er ekki nóg það þarf slöngu...  Og fólkið streymdi að bæði smalar og áhorfendur.  Það náðist að slökkva eldinn áður en kjötið brann og  ekki um annað að ræða en að brytja lambið niður og skella því á gasið.... þá kom sér vel að eiga tvö grill og pabba sem er vanur að grilla . Bjó til 10 lítrar af sósu og grænmeti og skellti þessu á hlaðborð....

Fyrir utan smala eins og Rút og Guðbjörgu, Sigurjón og syni, mína fjölskyldu sem taldi 13 manns var mættur sjálfur Árni Johnsen og frú.. Ási Friðriks og einhver kall með honum auk  tveir eða þrír menn  sem ég kann ekki alveg skil á.   Hildu hans Sigurpáls skildi ekkert í öllu þessum mannskap og  spurði mig hvort ég þekkti allt þetta fólk sem gengi bara út og inn um húsið og fengi sér að borða.  Þá kom kallinn sem kom með Ása og spurði.  Hver er húsráðandi hér ? Hverjum á ég að þakka fyrir matinn... já svona er lífið í sveitinni.

 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Gaman saman

Höfundur

Heiða Björg Scheving
Heiða Björg Scheving

Heiða Björg er mamma, amma, húsmóðir og leikskólakennari  sem er nýflutt úr borginni í sveitasælu á suðurlandi.

Það er svo margt skemmtilegt sem hún er að upplifa og  hún hefur mikla þörf fyrir að skrifa um það sem á daga hennar drífur og er þá ekki bara eins gott að leyfa því að flakka.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Eyfjaferð Fo-95 013
  • FO 95                  í Eyjum 2009 1 2 202
  • FO 95                  í Eyjum 2009 1 2 242
  • FO 95                  í Eyjum 2009 1 2 173
  • FO 95                  í Eyjum 2009 1 2 206

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband