Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
14.3.2008 | 13:17
Saumavélin
12. mars 2008
Loksins.. loksins. Það hefur verið frábært að keyra í vinnuna undanfarna morgna. Sólin að koma upp og snjór yfir öllu og vetrarútsýnið það fallegasta á Íslandi. Þó svo að það hafi snjóað óvenju mikið á suðurlandi hefur veðrið verið svo leiðinlegt að maður hefur ekki notið útsýnis. Öll athygli farið í það að halda bílnum á veginum í roki, skafrenning, rigningu og hálku.
Hvað haldi þið .. en ég lét glepjast af saumavélasölumönnunum. Já ég þessi fljótfæra kona sem hef vandað mig sérstaklega í að láta ekki gylliboð eða farandsala, fyrir utan fisksalann sem kemur stundum í sveitina, glepja mig . Og ég kaupi helst ekkert á netinu nema flugmiða og hótel til þess að vera ekki að spreða kortanúmerinu mínu í allar áttir.
Gamla vélin mín er ónýt. Átti bara eftir að gefa mér tíma í að skoða og kaupa nýja og á meðan hafa hrannast upp gardínur, buxur og fl. sem þarf að sauma. Magnús reyndi að koma þeirri gömlu í gang en það gekk ekki. Honum varð nú á orði þegar hann opnaði hana og sá hvað hún var lítið notuð. "Ég hef kannski ekki náð mér í rétta konu". það var því um að gera að drífa sig í að kaupa nýja og sína honum að ég væri liðtæk í saumaskap þó svo ég hefði ekki stundað hann í miklu mæli.
Síðasta föstudag sá ég svo auglýsingu í Dagskránni á saumavélum... sérstakt tilboðsverð... kr. 18.900.- Þekkt saumavélanafn, nemar Listaháskólans áttu að sýna notkun á kynningarfundum og efst í horninu á auglýsingunni var merkið bót.is og ég hugsaði "þessar saumakonur í bót.is hafa mikið vit á saumaskap svo þetta er örugglega sæmileg vél"
Ég vissi ekki fyrr en ég var búin að hringja og festa kaup á einni vél út á kortið mitt. Stúlkan sem svaraði var mjög vingjarnleg og skýr og bauð mér aukahluti sem ég taldi mig ekki þurfa í minn einfalda saumaskap. Þegar ég spurði hvort ég mætti ná í vélina á Selfoss vaknað fyrsti efinn því stúlkan sagði að það væri ekki hægt. Vélarnar væru ekki komnar til landsins og þær yrðu sendar til kaupanda í næstu viku. ÆÆ ég sem sá fyrir mér að geta byrjað að sauma um helgina. Þegar ég kom heim sýndi ég Magnúsi auglýsinguna .. og hann brosti svona brosi ... heldur þú að þetta séu góð kaup ? ... Annar efi......
Já hún er allavega ódýr svo kemur hitt í ljós sagði ég og reyndi nú að sannfæra mig frekar en hann. Á mánudaginn fór ég svo á Selfoss og ákvað að kíkja í bót.is og fá að skoða þessar vélar sem var verið að auglýsa... En afgreiðslukona þar tjáði mér að þetta væru einhverjir fautaþyrlar sem hún botnaði ekkert í og hún skildi ekki hvernig þessir menn ætluðu að selja allar þessar vélar og alls ekki hvernig þeir ætluðu að þjónusta þær í framtíðinni.
Mér var allri lokið.. sagði konunni alls ekki að ég væri búin að kaupa eina og þáði hjá henni bæklinga og verð á þeim vélum sem hún var að selja. Enda orðin viss um að ég hefði keypt köttinn í sekknum.
Ég fékk svo staðfestingu á mistökum mínum þegar ég las fréttir á netinu í dag. Svikahrapparnir höfðu verið gómaðir við sölu á saumavélum á Selfossi og ég líklega búin að tapa aurunum mínum.
Þegar ég kom heim var það fyrsta sem Magnús sagði við mig.. "jæja elskan nú getur þú farið að sauma" . Mér fannst óþarfi af honum að vera núa vitleysunni í mér um nasir og sagði honum að við þessu hugsunarleysi og fljótfærni minni væri ekkert að gera og það væri útrætt mál......
En saumavélin er komin sagði hann og setti stórann kassa á borðið... ég varð eitt spurningamerki..???
Við flýttum okkur að opna kassann og viti menn..nýja saumavélin mín kom upp úr kassanum.
Ég hafi ekki tíma til að prófa hana í kvöld en ætla að gera það um helgina eins og nýja traktorinn okkar sem við fengum í vikunni. Hann er voða tæknilegur... og meira veit ég ekki um hann frekar en hina vélina. Góða helgi
21.2.2008 | 22:24
Óveður
21.2.2008 | 22:23
Úr sveitinni
21.2.2008 | 22:22
Flugur
Um bloggið
Gaman saman
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar