Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

vinkonur mínar

 

Mér finnst alltaf gaman að eiga afmæli. Nú þegar veðrið er svona gott er frábært að halda uppá afmæli.  Þó mér hafi oft leiðs það að eiga ekki afmæli á skólatíma þegar ég var barn þá er það svo til gleymt núna.   

Þegar  ég var 25 ára hagað þannig til hjá mér að ég bjó hjá foreldrum mínum og var með fjölskyldukaffiboð í tilefni dagsins og sagði svo vinkonunum að ég biði þeim í veislu þegar ég væri búin að kaupa mér íbúð.. Þegar ég hafði svo keypt mér stóra og góða íbúð var ég langt gengin í 27 ár....Svo ég sendi þeim boðskort  þar sem í stóð.. í tilefni 27 ára afmælis mín ætla ég að halda uppá 25 ára afmælið mitt með matarboði að Áshamri ..  Það var alveg frábært. Grímu kokkur sem nú er orðin landsfrægur eðalkokkur sá um að elda kræsingar í okkur vinkonurnar.

Ég endurtók sama leikinn þegar ég varð 37 og bauð í stelpupartý...

Í fyrra varð ég 47 og varð þá hugsað til þess að ég ætti en eftir að halda uppá 45 ára afmælið mitt.  En þá var ég að flytja í sveitina og byrja í nýrri vinnu þannig að ég ákvað að fresta þessari veislu.  En nú er komin 20 júní þetta líka fallega veður og veðurspá.. svo í kvöld ætla ég en að bjóða mínum frábæru vinkonum í 45 ára afmælið mitt í  tilefn þess að ég er 48 ára í dag.

Það er búið að slá flöt fyrir sunnan bæ, affrysta andarbringur á grillið og greinilega komin hugur ímannskapinn ef marka má mynd sem Tobba sendi  mér af henni, Obbu og Guðrúnu.

jarðskjálfti 231

Vinkonur mínar fögru...

Var að fá þessa frá Guðrúnu Jónu...

 

Litskrúðugar leika sér
léttar, þetta líkar mér.
Fögur fljóð og nýgreitt hár
fegurðardrottning og gleðitár


Sláttur og veðurbíða

Þá er sláttur byrjaður fyrir alvöru hjá okkur. Við vorum reyndar fyrst til að slá þetta sumarið en það var beljuhagi sem var svo mikið sprottinn þegar við komum frá Færeyjum að það var ekki hægt að hleypa kúnnum á hann , þær hefðu bara troðið grasið  niður.  Þannig að þegar fréttamenn hringdu í Magnús og vildu koma með frétt um fyrsta slátt fannst honum ekki taka því.. þetta væri nú bara ofspottinn beljuhagi. En veðrið hefur verið alveg frábært þessa viku.  Veðurblíðan  á Hvolsvelli  kemur mér á óvart. Þó að það blási allt um kring er logn í bænum.  Það er ekki ósjaldan að ég kem heim að loknum vinnudegi í leikskólanum að það er allt annað veður þar.  Meira rok og jafnvel skýjað  þó á Hvolsvelli sé heiðskýrt..  En í gær var 20 stiga hiti í Steinum og logn fram að hádegi.. eftir það fór að blása en hitinn hélst fram á kvöld. Um helgina ætlum við að hirða þá 7 hektara sem hann Þórarinn sló fyrir okkur í gærkvöldi og sinna dætra dætrunum þeim Sveinbjörgu Júlíu og Selmu Rún sem koma í sveitina til ömmu og Madda í dag.    Gaman gaman.... Góða helgi


Girðingarvinna

Á miðvikudaginn í síðustu viku vorum við Magnús að laga girðingu sem skemmdist þegar stór skriða kom niður úr Steinafjalli s.l. haust.  Þegar við vorum þarna í brekkunni var ég að velta fyrir mér magninu og grjóti og aur sem liggur niður brekkuna og alveg niður að suðurlandsvegi. Tveir stórir steinar eða björg er óhætt að segja.  Ég hefi ekki viljað  vera þarna daginn eftir þegar stóri skjálftinn kom.  Það er ekki að sjá að neitt hafi hreyfst þarna en ég held að það hefði verið óhugnanlegt  En nú er girðingin komin í lag.  Kálfarnir okkar  hafa verið að trítla  alla leið austur í Núpakotsdal þannig að við höfum þurft að spæna á eftir þeim fjórhjólinu.  Nú er bara að vona að nýja girðingin sé kálfaheld.

 

Girðingarvinna    1 016

Magnús að reka niður staura í skriðunni          Hér sést skriðan í fjallshlíðinni  

 


Ættarmót

Síðasta laugardag héldum við ættarmót í Grímsnesinu hjá mömmu og pabba.   Þetta voru systkinin hennar mömmu.  Það vantaði töluvert af fólki en mikið var gaman að hitta þessa ættingja.  Við höfum ekki verið duglega að halda  hópnum saman en ætlum að standa okkur betur í minningu Bjargar ömmu. 

En það var ein af hennar síðustu ósk að við misstum ekki af hvort öðru.   Takk fyrir góðan dag.

1 042 Fleirri myndir í albúminu


Kýrnar út i sumarið

Þá er maður búin að fara til Færeyja. Það var virkilega gaman að koma þangað. Ég ætla að reyna að reyna að skrifa smá ferðasögu á næstunni er það verður tími frá bústörfum.   En þegar við komum heim á mánudaginn sáum við að grassprettan er orðin svo mikil og veðurfar gott að það var  ekki eftir neinu að bíða með að setja kýrnar út.  Magnús fór því í það að yfirfara rafmagnsgirðingarnar í kringum hagana sem þær byrja á að fara á.  Það er svo fyndið þegar þessir hlunkar hendast út og hoppa og sparka um allt.  Í gærkvöldi sló ég svo blettinn umhverfis húsið. Það tó óratíma því sprettan er svo mikil. Var endalaust a drepa á sláttuvélinni.

Í kvöld ætla ég svo að fara og hitta Skógaskólahópinn.  Við ætlum að hittast í líkamsræktarstöðinni hjá henni Unni, sprikla svolítið með henni, fara í heita potta og svo að borða saman.  Mikið hlakka ég til.  Það er svo langt síðan ég hef hitt þessar elskur.

20. maí 2007 011                     20. maí 2007 009


Skoðaði á þeim afturendann

Hann Magnús minn skrapp austur  á Reyðafjörð í síðustu viku til þess að ná í traktor sem hann var að kaupa og ók honum svo heim.  Þannig að ég var bústjóri á meðan og fékk þau skilaboða að fylgjast með kúnnum sem eiga að bera  á næstu dögum.  Ég fór því í stígvél og fjósagalla  og  inn í stíurnar til kúnna og gekk  á milli þeirra og skoðaði á þeim afturendann ef einhver merki um burð væri að ræða.   Á meðan velti ég því fyrir mér hvað ég ætti að gera ef kálfur stæði í kúnni ....  Því það getur verið tveggja,  þriggja fílelda manna verk að ná kálfi úr kú sem ekki getur borið sjálf.  En sem betur fer þurfti ég ekki að hafa áhyggjur af því. Allt var með besta móti og ég rumskaði þegar hann Magnús minn skreið uppí til mín um nóttina örugglega frekar lúinn eftir akstur til Reykjavíkur, flug á austfirði og 16 tíma akstur á dráttarvél...


Rólegheitin í sveitinni

Það viðraði vel til vorverka í Steinahreppi þessa helgi sem er gott því það er í mörg horn að líta.   Hvítasunnuhelgin liðin og fyrstu kálfarnir komin út.  Til þess að þurfa ekki að hlaupa um allar trissur á eftir kálfum sem aldrei hafa komið út fyrir hússins dyr  rákum við þá upp í litla kerru og selfluttum út á tún.  Læsingin á kerrunni var eitthvað léleg og til þess að fyrirbyggja að kálfarnir gætu hoppa út úr kerrunni stóð ég aftan á með kálfunum.... þetta var svona eins og í bekkjabíl á leið á þjóðhátíð nema þarna voru kálfar en ekki fólk.

Það er verið að búa til nýtt tún í mýrlendi suðuraustur af bænum.  Ég hélt að svona tún yrði hér um bil  til af sjálfu sér en það er alls ekki.  Fyrst er að grafa skurði í kringum það svæði sem á að nota svo þarf að plægja svæðið, næst að pinnatæta, slóðdraga, sá og bera á áburð og síðan að valta yfir allt saman.  Æi ég er ekki alveg viss um að þetta sé í réttri röð.  En hvert þessara atriða er  hátt í dagsverk og meira með því að koma vélum og tækjum á staðinn.  Auk þess þarf að bera á öll önnur tún, ekki of snemma og ekki of seint, ekki í rigningu og ekki í roki... Svo er það þetta daglega.. gefa kúm og kálfum, hirða dýrin og dreifa skítnum..

Þetta er lífið í sveitinni og ég brosi stundum  í kampinn og svara játandi þegar fólk spyr “er ekki  dásamlegt að vera komin úr erli borgarinnar í rólegheitin í sveitinni” Smile


Garðurinn

Hvað haldið þið að ég sé að bardúsa þessa dagana.  Nú auðvitað í garðinum.  Þetta er í fyrsta skipti á minni æfi sem er að nálgast hálfa öld að ég hef garð til þess að hugsa um. Svo það er ekki bara bóndakonuhlutverið sem er nýtt hjá mér.  Við erum búin að róta alveg helling í garðinum eftir að við tókum við honum af henni Boggu.  Í fyrsta lagi létum við setja upp stóran pall sunna og vestan við húsið. Svo er ég að hamast við að taka torf að vegg sem var hlaðin þarna upp fyrir mörgum árum og var farin að safna allskonar illgresi. Hann kemur til með að verða voða fínn þegar ég er búin... hvenær sem það verður.   Í gær tætti ég svo upp valmúa sem er að dreifa sér um allan garð.  Hann er svakalega fallegur þegar hann blómstra.. stórum bleikum blómum.. svo ég kom honum fyrir við vegakantinn og lækinn . Þar má hann breiða úr sér að vild og ég sé bleiku blómin út um eldhúsgluggann.  


Stofnfé í fjárbúskap

Um helgina fékk ég boð um það að koma út í Varmahlíð.  En þar búa Anna Birna sýslumaður og  Siggi “sýslumannsfrú” ásamt börnum sínum. Ég hugsaði með mér að nú væri hún Anna Birna með hlaðið veisluborð eins og hennar er von og vísa og vildi láta okkur njóta þess.   Þegar við komum á staðinn voru  þar fyrir um tugur manna frá bifhjólasamtökum að skoða aðstæður fyrir hátíðahöld þar  í sumar.  Anna Birna kallar þá allan hópinn og sérstaklega mig að fjárhúsum sínum.  Þar kynnti hún mig sem húsfreyjuna á Hvassafelli, sambýliskonu Magnúsar og tilvonandi eignkonu !! (en hún bíður spennt eftir því að fá að gefa okkur saman).  Hún tók upp nýfætt lamb markaði það með marki Magnúsar og afhenti mér og sagði þetta gjöf frá fölskyldunni í Varmahlíð. Því fylgdi uppihald með fénu þeirra en hún sagði jafnframt að þetta tryggði að  fénu yrði vatnað og gefið hey á vetrum  þegar þau væru ekki heima.  Sem við höfum gert þegar við gefum vetrungum okkar sem eru í húsi þeirra,  svo ekki þurfti að launa það með lambi.  Yfir mig buldu hamingjuóskir frá bifhjólamönnum í leðurjökkum með tagl í hári  og alskegg.  En sem sagt nú á ég eina mórauða gimbur sem að sjálfsögðu fékk nafnið Anna og mun væntanlega verða stofnfé í væntanlegum fjárbúskap...


Moldrok

  Hver var að tala um logn í Steinahreppi...Í miðvikudaginn var svo þetta líka rokið.. eins og sjá má að þessari mynd þá ruku flögin upp í þessu leiðinda veðri enda fóru vinhviðurnar upp í 35 m/sek.  Það gerist nú reyndar oft  undir fjöllunum en kannski ekki á þessum tíma.

Sandfok 005


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Gaman saman

Höfundur

Heiða Björg Scheving
Heiða Björg Scheving

Heiða Björg er mamma, amma, húsmóðir og leikskólakennari  sem er nýflutt úr borginni í sveitasælu á suðurlandi.

Það er svo margt skemmtilegt sem hún er að upplifa og  hún hefur mikla þörf fyrir að skrifa um það sem á daga hennar drífur og er þá ekki bara eins gott að leyfa því að flakka.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Eyfjaferð Fo-95 013
  • FO 95                  í Eyjum 2009 1 2 202
  • FO 95                  í Eyjum 2009 1 2 242
  • FO 95                  í Eyjum 2009 1 2 173
  • FO 95                  í Eyjum 2009 1 2 206

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband